Hörð barátta og kosningafjör í Brimborg

Það er alltaf mikið fjör í Brimborg. 

Í gær fór fram kosning til 5 manna stjórnar Brimils, starfsmannafélags Brimborgar. Fráfarandi stjórn var ein sú besta í sögu félagins, að öðrum ólöstuðum, og voru um 12 atburðir skipulagðir á síðasta kjörtímabili. Luku þau starfsárinu með því að fara saman út að borða á Hereford steikhús í boði Brimborgar sem þakklæti fyrir vel unnin störf. Var þeim þakkað sérstaklega á aðalfundi með lófaklappi.

Tveir listar í framboði

Að þessu sinni voru tveir listar í framboði. Annar listinn kallaði sig G-hópinn og dró nafn sitt af því að allir frambjóðendur báru upphafsstafinn G í nafni sínu. Þetta var strákalistinn. Hinn listinn var stelpulisti og kallaði sá hópur sig G-strenginn. Ég ætla ekki að hætta mér út í pælingar hvernig á því nafni stendur.

Stelpulistinn sigraði í strákafyrirtækinu

Kosningarbaráttan fór fram einum degi fyrir kjörkvöld og var hörð en málefnaleg þó að einstaka frambjóðendur hafi á tímabili virst vera að fara á taugum. Þurfti að kalla til sjálfsskipaðan lögspeking rétt fyrir aðalfund til að skera úr um framkvæmd kosninga en allt fór vel að lokum. Stelpurnar í G-strengnum unnur yfirburðasigur og fengu 53 atkvæði en G-hópurinn fékk 8 atkvæði. Þetta var hörkusigur því bílgreinin hefur verið áberandi strákagrein þó það sé breytast og sífellt fleiri stelpur sem vinna í greininni. Það er í samræmi við stefnu Brimborgar að auka hlut kvenna í greininni. Þó er ekki ólíklegt að bakkelsið sem stelpurnar buðu upp á á kosningafundum hafi einnig gert einhvern gæfumun.

Aðalfundur fjölsóttur

Fjölmenni mætti á fundinn þar sem menn gæddu sér á pizzum og kók. Umræður voru fjörugar og voru fjórar tillögur að lagabreytingum bornar upp fyrir fundinn. Var samþykkt að vísa þeim öllum til nýrrar stjórnar sem myndi leggja þær fyrir alla félagsmenn í almennri atkvæðagreiðslu, þar á meðal tillögu frá einum frambjóðanda um að veittur yrði í framtíðinni kosningastyrkur til allra framboða. Bakkelsið hefur kostað sitt.

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri

Hafðu samband: egillj@brimborg.is


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju G-strengur með frábæra kosningu.

Margrét (IP-tala skráð) 26.10.2006 kl. 09:18

2 identicon

Ég vil þakka fyrir falleg orð í garð okkar sem sátum í síðustu stjórn. Árið er búið að vera rosalega skemmtilegt.

Svo vil ég líka þakka stuðninginn í nýliðnum kosningum.
Mig hlakkar mikið til að starfa annað ár í stjórn Brimils.
Áfram G-Strengurinn... :)


Lilja Helgadóttir (IP-tala skráð) 26.10.2006 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband