Breytingar á Brimborgarblogginu

Blogg Brimborgar hefur vakið gríðarlega athygli. Brimborg hóf að blogga 23. okt. 2006. Brimborgarbloggið kom í kjölfar míns eigins bloggs sem stofnað var 8. september. 2006. Samanlagt hafa næstum 13 þúsund heimsóknir verið skráðar á bloggin á þessum stutta tíma.

Fjölmiðlar hafa vakið máls á blogginu og það er rætt víða í viðskiptalífinu. Fjölmargir hafa lagt orð í belg í athugasemdakerfinu, sumir jafnvel misst sig (fjórir Tounge) en aðrir mjög ánægðir og enn fleiri hafa sent okkur tölvupóst eða hringt til að fagna þessu framtaki. Það er ljóst að Brimborg hefur brotið blað með þessu frumkvæði hér á landi og ný leið til samskipta við viðskiptavini er að ryðja sér til rúms.

Í dag fékk ég símtal frá manni sem starfar í fyrirtæki sem hefur sterka stöðu á vefnum hér á landi. Lýsti hann yfir mikilli ánægju með þetta framtak og benti á að hann hefði sótt námskeið um daginn á vegum ÍMARK þar sem fyrirtækjablogg hefði meðal annars verið ítarlega fjallað um. Fjölmargir aðrir aðilar á þessu sviði hafa einnig haft samband og viljað fræðast meira um stefnu Brimborgar á þessu sviði og hvert við teljum að þetta leiði.

Það er ljóst að þróunin er gríðarlega ör og möguleikarnir eru endalausir. Þetta er ný leið til samskipta.

Þrátt fyrir að ekki sé langur tími, aðeins 3 vikur, síðan Brimborg hóf að blogga þá er strax kominn tími á breytingar. Það er auðvitað þannig að þegar maður fer inn á ókunn mið þá veit maður ekki nákvæmlega hvar maður mun enda. Þannig er fyrirtækjabloggið. Maður hefur engin viðmið og verður því að prófa allt sjálfur. Reka sig á. Bæta sig. Læra.

Á þessum tíma höfum við lært margt en eitt er alveg augljóst. Eitt blogg er ekki nóg. Nei, við þurfum 12 blogg. Já, nú halda flestir, ef ekki allir, að maður sé orðinn endanlega ruglaður. Ekki höfðu margir trú (reyndar enginn) á því að maður myndi ná að halda úti einu bloggi. Hvað þá tveimur þegar Brimborgarbloggið bættist við. En 12 blogg.

Er þetta ekki bara eitthvað rugl? Það er von að menn spyrji.

Nei, þetta er ekkert rugl. Ástæðan er einföld og er fullkomlega í samræmi við þróun Brimborgar og stefnu fyrirtækisins. Brimborg er umboðsaðili fjölmargra birgja. Þeir hafa mismunandi gildi og mismunandi viðskiptavini og eru í reynd gífurlega ólíkir. Því varð fljótlega ljóst að hver og einn birgi varð að fá sitt eigið blogg. Og Brimborg sitt eigið blogg. Og starfsmannafélagið óskaði fljótlega eftir eigin bloggi. Nú og svo auðvitað mitt blogg.

Hvar ætlar þetta að enda? Það er von að menn spyrji.

Svarið er aldrei. Þetta kallar á meira. Kallar á nýjar tengingar bloggins við vef Brimborgar sem við lítum á sem samskiptamiðju. Í gegnum vefinn munu viðskiptavinir í auknum mæli hafa samskipti við okkur í Brimborg. Hefðbundnar samskiptaleiðir verða auðvitað í boði áfram en samskiptin munu meir og meir fara í gegnum vefinn. Á næstu dögum og vikum munu notendur vefsins sjá breytingar í þessa átt.

Bloggin sem tengjast Brimborg eru listuð upp hér fyrir neðan. Veldu það blogg eða þau blogg sem þú hefur áhuga á eða sem hentar þér af einhverjum ástæðum. Til að einfalda hlutina þá munt þú geta nálgast bloggin í gegnum vef Brimborgar þannig að nægjanlegt er fyrir þig að muna vefslóð Brimborgar, www.brimborg.is. Þaðan verða samskiptabrautir til allra átta.

En hér koma bloggin en hafið í huga að þau eru mislangt á veg komin.

Brimborgarbloggið,

Mitt eigið blogg, egill.blog.is

Fordbloggið

Volvobloggið

Citroënbloggið

Mazdabloggið

Volvo trukkabloggið

Volvo pentabloggið

Volvo vinnuvélabloggið

Blogg starfsmannafélags Brimborgar

Lincolnbloggið

Daihatsubloggið

Við munum halda áfram að þróa bloggin og munum gera breytingar reglulega. Næst er framundan að vinna í útliti blogganna og vonandi fara að sjást breytingar á þeim vettvangi fljótlega.

Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri

Hafðu samband: egillj@brimborg.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GreyTeam Íslandi ehf

Semsagt 12 blogg. Ekki í fyrsta sinn sem ég finn mig í nafi alheimsins, þar sem allt hlýtur að snúast á milljónföldum hraða ljóssins, þegar Egill er nærri. Maðurinn er á V-Power. Reynslan hefur kennt mér að líkamsrækt nægir bara ekki ef maður ætlar að halda ráðgjafastöðunni hjá almannatengslafyrirtæki Brimborgar. Það þarf að rækta margt annað. T.d. bakteríuna sem fylgir því að vinna með manninum. Brimborg stækkar og stækkar og vonandi heilinn í mér einnig. Alvöru vaxtarækt.

/Guðjón Pálsson

GreyTeam Íslandi ehf, 15.11.2006 kl. 18:16

2 identicon

Hann Egill er nú ekki frægur fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur... eins gott að hafa fingrasetninguna í lagi.

Stína (IP-tala skráð) 17.11.2006 kl. 17:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband