Mánudagur, 12. febrúar 2007
Þorrablót hjá Brimborg
Í tilefni þorrans fórum við Brimborgarar á þorrablót sem byrjaði með þorragöngu um Öskjuhlíðina, þar var m.a. boðið uppá hákarl og brennivín sem rann vel ofan í viðstadda. Gangan endaði í Perlunni þar sem haldið var áfram að borða dýrindis... illa lyktandi, ónýtan og súran mat...
Það var rosalega góð mæting, eða um 90 manns og skemmtu allir sér mjög vel. Hér koma nokkrar myndir og svo er restin af myndunum í albúminu (hérna vinstra megin).
Lilja Helgadóttir, bloggstjóri starfsmannafélagsins Brimils
Hafðu samband: lilja@brimborg.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. janúar 2007
Þorrinn blótaður með stæl
Hið árlega þorrablót Brimils, starfsmannafélags Brimborgar, verður haldið föstudaginn 19. janúar.
Við smjöttum saman á:
Sviðakjömmum, hrútspungum, rófustöppu, hangikjeti, hákarli, hörðum fisk, sviðasultu og öllum mat sem vel er orðinn súr og löngu ónýtur.
Ef þú átt eitthvað gamalt og ónýtt í ísskápnum þá endilega komdu meðððða.....
Brimilsmeðlimir og makar þeirra mæta:
Föstudaginn 19. janúar í Perluna
Þorrablótsganga hefst kl.19.00 (má alls ekki missa af henni)
Smjattið hefst kl. 21.00
Þorrahlaðborðið á kr. 1.900.- pr. mann án drykkja
Fordrykkur í boði Brimils
Fyrir allra hörðustu víkingana þá verður barinn opinn fram eftir kveldi
... en mjöðurinn er á kostnað víkinganna sjálfra...
Skráning fer fram eins og alltaf á síma- og móttökuborði (sími 9) eða mottaka1@brimborg.is, síðasti skráningardagur þriðjudaginn 16. janúar.
Með víkingakveðju,
Brimill
P.S. Klæðnaður í göngu, góður hlífðarútigalli, húfa, vettlingar og góðir skór (sparifötin innan undir eða má geyma í Perlunni og skipta á staðnum)
Lilja Helgadóttir, bloggstjóri Brimils
Hafðu samband: lilja@brimborg.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 8. janúar 2007
Starfsmenn á forsýningu á myndinni Foreldrar
Starfsmönnum Brimborgar, mökum þeirra og börnum er boðið á forsýningu á nýrri íslenskri mynd, Foreldrar, í leikstjórn Ragnars Bragasonar í tilefni af því að Brimborg hefur ákveðið að styðja við bakið á Vesturporti, framleiðanda myndarinnar. Myndin verður frumsýnd almenningi seinna í janúar en þetta er kvikmynd í fullri lengd og eru aðalleikarar Nanna Kristín Magnúsdóttir, Víkingur Kristjánsson og Ingvar E. Sigurðsson.
Forsýningin á Foreldrum verður næstkomandi föstudag 12. janúar í Háskólabíó, stóra salnum, og hefst kl. 17:45. Takmarkað magn miða er í boði og sér markaðs- og gæðasvið um dreifingu miða. Nánar um myndina á Brimborgar blogginu.
Lilja Helgadóttir, bloggstjóri
Hafðu samband: lilja@brimborg.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 8. janúar 2007
Mjög vel heppnuð skautaferð
1. Atburður Brimils 2007 - Skautar.
Miðvikudaginn 3. janúar þeyttust Brimborgarar í Egilshöll, allir með eitt markmið. Það átti að sýna samstarfsfélögum og fjölskyldum að þeir kynnu á skauta... og það stóðu þeir við, næstum hver einn og einasti.
Það kom í ljós að hann Piero hefur greinilega lært eitthvað af honum afa sínum, því hann geystist um svellið eins og skautadrottning og það sást vel að íshokkí æfingar Kára Frey hafa skilað góðum árangri.
Eiríkur Björnsson þóttist ekkert kunna þegar hann mætti á svellið en 10 mínútum seinna var hann farinn að skauta eins og hann hefði fundið upp skautana.
Það var kennsla fyrir þessa sem voru ekki alveg að treysta sér strax í snúninga og gekk hún prýðilega og síðan var leikinn einn íshokkíleikur. Og það sem stóð helst uppúr, var að það vissi enginn hver var með hverjum í liði því það hefði gleymst að setja annað liðið í vesti... og orsakaði það auðvitað að fólk var að stela pökknum (eða segir maður pökkinum?) af fólki í sama liði.
Eftir að hafa skautað í rúman klukkutíma þurfti að safna kröftum svo að við fengum okkur pizzur og kók og skelltum okkur svo aftur á svellið.
Þetta var flott ferð sem mun svo sannarlega verða endurtekin. Takk fyrir frábæra kvöldstund.
Lilja Helgadóttir, bloggstjóri
Hafðu samband: lilja@brimborg.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 29. desember 2006
Á skautum skemmti ég mér, trall.....
Er Piero jafn góður á skautum og afi hans? Hefur Skúli lært eitthvað af íshokkí strákunum sínum? Svör við þessum og fleiri spurningum munu fást í næsta þætti....,nei, í Egilshöllinni þann 3. janúar.
Já, núna er komið að Brimborgurum að fylla skautasvellið í Egilshöll. Við ætlum að skella okkur á skauta með fjölskyldum og samstarfsfélögum og hafa gaman að. Það verður hin besta skemmtun, einmitt vegna þess að ekki eru allir í þessum hópi vanir skautarar. Fyrir þá verður boðið upp á kennslu.
Við teljum að þetta sé einstakt tækifæri til að losa sig við nokkur grömm eftir jólin því ekki veitir af. En samt sem áður ætlum við að bjóða uppá Pizzu veislu þegar komið verður af svellinu. Spurning hvort þetta endi í plús eða mínus grömmum.
Fyrir þetta prógram borgar hver og einn aðeins kr. 350. Gæti ekki verið lægra. Skráningin hefur gengið ótrúlega vel og yfir 100 manns skráðir nú þegar. Sjáumst hress og kát á svellinu miðvikudaginn 3. janúar 2007 kl. 18-20.
Lilja Helgadóttir, bloggstjóri Brimils
Hafðu samband: lilja@brimborg.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 11. nóvember 2006
Fjörugt starfsár í starfsmannafélaginu framundan
Já... við unnum aldeilis þessar kosningar og núna byrjar fjörið. Við stelpurnar í stjórn Brimils erum byrjaðar að funda og gengur mjög vel. Það hefur verið ákveðið hvernig við munum "sitja" og mun það vera: Formaður - Lovísa, Ritari - Rósa, Gjaldkeri - Sigurlaug, Bloggstjóri - Lilja, Meðstjórnandi - Elín.
Eins og allir Brimborgarar vita voru lagðar fram, á síðasta aðalfundi, 3 tillögur til lagabreytinga og hafa þær verið undir smásjá undanfarnar vikur.
Á næstu vikum munum við setja upp ársdagskránna. Og það má búast við að hún verði þétt, því við erum með margt í sigtinu fyrir komandi ár og vonum að allir séu komnir í gírinn. Það eru 159 Brimborgarar skráðir í starfsmannafélagið, sem segir okkur að hver og einn viðburður ætti að vera fjölmennari en nokkru sinni fyrr.
Við hlökkum til að takast á við verkefni næsta árs og vonum að samstarfið verði gott.
Lilja Helgadóttir, bloggstjóri Brimils
Hafðu samband: lilja@brimborg.is
Bloggar | Breytt 14.11.2006 kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 26. október 2006
Hörð barátta og kosningafjör í Brimborg
Það er alltaf mikið fjör í Brimborg.
Í gær fór fram kosning til 5 manna stjórnar Brimils, starfsmannafélags Brimborgar. Fráfarandi stjórn var ein sú besta í sögu félagins, að öðrum ólöstuðum, og voru um 12 atburðir skipulagðir á síðasta kjörtímabili. Luku þau starfsárinu með því að fara saman út að borða á Hereford steikhús í boði Brimborgar sem þakklæti fyrir vel unnin störf. Var þeim þakkað sérstaklega á aðalfundi með lófaklappi.
Tveir listar í framboði
Að þessu sinni voru tveir listar í framboði. Annar listinn kallaði sig G-hópinn og dró nafn sitt af því að allir frambjóðendur báru upphafsstafinn G í nafni sínu. Þetta var strákalistinn. Hinn listinn var stelpulisti og kallaði sá hópur sig G-strenginn. Ég ætla ekki að hætta mér út í pælingar hvernig á því nafni stendur.
Stelpulistinn sigraði í strákafyrirtækinu
Kosningarbaráttan fór fram einum degi fyrir kjörkvöld og var hörð en málefnaleg þó að einstaka frambjóðendur hafi á tímabili virst vera að fara á taugum. Þurfti að kalla til sjálfsskipaðan lögspeking rétt fyrir aðalfund til að skera úr um framkvæmd kosninga en allt fór vel að lokum. Stelpurnar í G-strengnum unnur yfirburðasigur og fengu 53 atkvæði en G-hópurinn fékk 8 atkvæði. Þetta var hörkusigur því bílgreinin hefur verið áberandi strákagrein þó það sé breytast og sífellt fleiri stelpur sem vinna í greininni. Það er í samræmi við stefnu Brimborgar að auka hlut kvenna í greininni. Þó er ekki ólíklegt að bakkelsið sem stelpurnar buðu upp á á kosningafundum hafi einnig gert einhvern gæfumun.
Aðalfundur fjölsóttur
Fjölmenni mætti á fundinn þar sem menn gæddu sér á pizzum og kók. Umræður voru fjörugar og voru fjórar tillögur að lagabreytingum bornar upp fyrir fundinn. Var samþykkt að vísa þeim öllum til nýrrar stjórnar sem myndi leggja þær fyrir alla félagsmenn í almennri atkvæðagreiðslu, þar á meðal tillögu frá einum frambjóðanda um að veittur yrði í framtíðinni kosningastyrkur til allra framboða. Bakkelsið hefur kostað sitt.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri
Hafðu samband: egillj@brimborg.is
Bloggar | Breytt 14.11.2006 kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)