Þriðjudagur, 2. janúar 2007
Árið 2006 stórt bílaár, samdrætti spáð 2007
Árið 2006 næst stærsta bílaárið
Árið 2006 var stórt ár í bílasölu á Íslandi en samtals voru seldir 19.851 nýr bíll á árinu Þetta er þó ekki stærsta bílasöluárið því árið 2005 trónir á toppnum með 20.578 nýja bíla og því er samdráttur á milli ára -3,5%. Rétt er að nefna að þegar talað er um sölu nýrra bíla í þessu samhengi tek ég með alla fólksbíla, jeppa, sendibíla, rútur, litla og stóra pallbíla og léttari vörubíla.
Árið 1987 enn í þriðja sæti
Árið 2006 skráist í sögubækur sem annað stærsta árið í sölu nýrra bíla því það slær út metárinu 1987 en þá voru seldir 18.081 nýr bíll. Það ár var í raun gríðarlega merkilegt ár á margan hátt og má í raun segja að salan þá hafi í raun verið hlutfallslega mun meiri en árin 2005 og 2006 ef tekið er tillit til fólksfjölda og aðstæðum í efnahagslífinu. Það voru nokkar ástæður fyrir þessari miklu sölu árið 1987 og reyndar var árið 1986 líka stórt eða 13.352 bílar. Ástæður þessarar miklu sölu voru helstar:
- Mikill uppgangur í efnahagslífinu árið 1986 og 1987
- Veruleg lækkun vörugjalda á bílum sem hluti af þjóðarsátt um kjarasamninga 1986
- Vaxtaákvarðanir gefnar frjálsar 1986 sem leiddi m.a. til stofnunar fyrirtækja eins og Glitnis og Lýsingar sem hófu lán til bílakaupa
- Árið 1987 var skattlaust ár þegar breytt var úr eftirágreiddum sköttum yfir í staðgreiðslu skatta. Þetta leiddi til gífurlegs hvata til vinnu sem aflaði fólki gífurlegra tekna
Árið 1999 er síðan fjórða stærsta bílasöluárið með 16.904 bíla selda og árið 2000 er það fimmta stærsta með 15.319 bíla. Til samanburðar þá má nefna að árið 2001 var salan aðeins 8.280 bílar og enn minni árið 2002 eða 7.801 bíll.
Samdráttur á markaðnum árið 2006 er -3,5%
Eins og áður segir minnkaði salan á árinu 2006 um -3,5%, þ.e. úr 20.578 bílum í 19.851 bíl. Það er athyglisvert að greina þá tölu nánar því hún segir ekki alla söguna því hún er meðaltal allra flokka. Við höfum greint markaðinn í nokkra flokka og eru þeir eftirfarandi.
- Fólksbílar og jeppar: Fjöldi 2005: 15.955 Fjöldi 2006: 14.604 Samdráttur: -8,5%
- Fólksbílar og jeppar til bílaleiga: Fjöldi 2005: 2.105 Fjöldi 2006: 2.523 Aukning: +19,9%
- Sendibílar og minni pallbílar: Fjöldi 2005: 2.079 Fjöldi 2006: 2.483 Aukning: +19,4%
- Rútur: Fjöldi 2005: 106 Fjöldi 2006: 56 Samdráttur: -47,2%
- Stórir pallbílar og léttir vörubílar: Fjöldi 2005: 333 Fiöldi 2006: 185 Samdráttur: -44,4%
Einnig er áhugavert að skoða breytinguna á sölunni eftir því sem leið á árið 2006. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2006 seldust 6051 nýr bíll en á sama tíma árið 2005 seldust 4097 bílar. Jókst salan frá sama tíma árið 2005 um hvorki meira né minna en +47,7%. En það þýðir auðvitað að seinnipartur ársins frá apríl til desember hefur verið samdráttartímabil. Skoðum það nánar.
Frá apríl til desember 2005 voru seldir 16.481 bíll en á sama tíma árið 2006 seldust 13.800 bílar eða samdráttur um -16,3%. Ef skoðaðir eru þrír síðustu mánuðir ársins þá dróst markaðurinn saman um -22,5% í október, um -25% í nóvember og um -39,1% í desember.
Samdráttur í fólksbílum og jeppum -43% í desember
Eins og áður segir eru allir flokkar bíla inn í þessum tölum. En það er athyglisvert að greina markaðinn með því að taka til hliðar svokallaða atvinnubíla eins og sendibíla, pallbíla, rútur og létta vörubíla. Þá verða eftir eftir fólksbílar og jeppar en inn í þeirri tölu eru bílar seldir til bílaleiga. Ef bílaleigubílarnir eru líka teknir frá þá verða eftir fólksbílar og jeppar sem seldir eru til einstaklinga og hefðbundinna fyrirtækja. Ástæðan fyrir því að við greinum bílaleigur sérstaklega er sú að salan þar er mjög árstíðabundin þ.e. maí til júlí að mestu leiti og einnig eru söluskilmálar ólíkir því sem gengur og gerist þ.e. flotinn er nánast allur keyptur til baka í einu lagi eftir ákveðinn tíma.
Eins og áður kemur fram þá seldust allt árið 2005 15.955 fólksbílar og jeppar en árið 2006 voru þeir 14.604 og er það samdráttur upp á -8,5%. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2006 voru seldir 5.218 bílar skv. þessari skilgreiningu á móti 3.472 bílum fyrstu þrjá mánuði ársins 2005. Það er aukning um +50,2%. Þegar aftur á móti er litið á seinni part ársins 2006, frá apríl til desember, þá seljast í þessum flokki 9.386 bílar en á sama tíma árið 2005 12.483 bílar. Það er samdráttur upp á -24,8%. Ef skoðaðir eru síðustu þrír mánuðir ársins er samdrátturinn í þessum flokki -31,5% og í desember einum er samdrátturinn -43% frá því í desember 2005.
26% samdrætti spáð árið 2007
Brimborg spáir -26% samdrætti árið 2007 á heildarmarkaði nýrra bíla (allar tegundir bíla) m.v. árið 2006 og reiknar því með að markaðurinn verði 14.697 bílar. Heldur meiri samdrætti er spáð á fólksbíla- og jeppamarkaði til einstaklinga og hefðbundinna fyrirtækja því þar spáir Brimborg -30% samdrætti og að markaðurinn verði 10.150 bílar. Þar sem fyrstu þrír mánuðir ársins 2006 voru gríðarlega stórir má reikna með miklum samdrætti í upphafi nýja ársins og gerum við ráð fyrir að samdrátturinn verði um -50% fyrstu þrjá mánuðina. Aftur á móti reiknar fyrirtækið með um +4% aukningu á markaði til bílaleiga en aukningin hjá bílaleigum árið 2006 var um +20%.
Árið 2006 var metár hjá Brimborg en fyrirtækið afhenti tæplega 2.500 nýja bíla á árinu og yfir 2.100 notaða bíla eða samtals 4.600 bíla. Meira en 150 nýjir vörubílar, vinnuvélar og bátavélar voru afhentar og er það einnig met.
Að lokum viljum við nýta tækiðfærið og þakka fyrir viðskiptin á liðnu ári með ósk um gleðilegt nýtt ár til viðskiptavina, samstarfsmanna og landsmanna allra.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri
Hafðu samband: egillj@brimborg.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.