Fimmtudagur, 23. nóvember 2006
Hekla spáir verðlækkun notaðra bíla
Í fréttum á miðvikudaginn, 22. nóv., kom fram hjá forstjóra bílaumboðsins Heklu, að verð notaðra bíla muni lækka á næstu misserum. Á næstu 1-2 árum.
Mun meiri afföll erlendis en hér á landi
Helstu rök forstjórans fyrir þessari spá er sú að afföll hér á landi séu lægri en afföll á nágrannalöndum okkar. Þetta er rétt hjá forstjóranum þó saman hafi dregið undanfarin ár. Mun meiri munur var fyrir nokkrum árum.
Fagmennska nauðsynleg við sölu til bílaleiga
Aukin sala á bílum til bílaleiga hefur einnig áhrif á verðfall notaðra bíla skv. fréttinni því flestir bílaleigubílar eru seldir með svokölluðum endurkaupaskilmálum, þ.e. viðeigandi bílaumboð semur þá um að taka þá til baka að 15 mánuðum liðnum.
Það er mjög mikilvægt að sala til bílaleiga og endurkaup bílanna sé stýrt af fagmennsku til að afstýra verðfalli á bílum sem bílaleigur kaupa. Það er mikilvægt fyrir almenna bílkaupendur, bílaumboð og einnig fyrir bílaleigurnar. Brimborg hefur lagt mikla áherslu á þetta og selur aðeins takmarkað magn til bílaleiga á hverju ári og dreifir magninu á nokkrar bíltegundir og nokkrar bílgerðir til að yfirfylla ekki markaðinn við endurkaupin. Mörg dæmi eru um að bílaumboð hafi ekki hugað að þessu og lagt of mikið kapp á söluna í upphafi en ekki hugleitt afleiðingarnar við endurkaupin. Kapp er best með forsjá.
Nýir bílar öruggari en eldri bílar
Einnig telur forstjórinn að mikil þróun í nýjum bílum hvað varðar eyðslu, mengun og öryggisbúnað hafi áhrif. Á undanförnum árum hefur orðið gífurleg þróun í nýjum bílum. Meiri búnaður, sparneytnari bílar, vistmildari og ekki síst öruggari hafa litið dagsins ljós. Sænskar rannsóknir, t.d. rannsóknir Folksam í Svíþjóð, hafa sýnt fram á að 5 ára gamlir bílar eru t.d. margfalt öruggari en 10 ára gamlir bílar og nýjir bílar ennfremur mun öruggari en 5 ára gamlir bílar. Á sama tíma hefur verð nýrra bíla í raun lækkað að raunvirði og sérstaklega ef tekið er tillit til aukins búnaðar og aukinnar tækni eins og nefnt var. Því er ljóst að þetta hefur áhrif til verðlækkunar notaðra bíla.
Með því að smella á þessa slóð má hlusta á viðtalið við forstjóra Heklu, Knút G. Hauksson, um væntanlega verðlækkun á notuðum bílum.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri
Hafðu samband: egillj@brimborg.is
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.