Sunnudagur, 18. febrúar 2007
Erindi til Alþingis um bifreiðar knúnar Etanoli
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar skrifar;
Í lok nóvember á síðasta ári sendi undirritaður til Alþingis, nánar tiltekið til Efnahags- og viðskiptanefndar, fyrir hönd Brimborgar, erindi og umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fl. Í frumvarpinu er fjallað um ökutæki sem geta gengið fyrir tveimur orkugjöfum, þ.e. tvíorkubílar eða svokallaðir Hybrid vehicles. Þessir bílar hafa fengið niðurfellingu á hluta af vörugjöldum og í breytingunni fólst eingöngu að framlengja þá heimild.
Umsögn Brimborgar fjallar um þann möguleika að bæta inn í lögin bílum sem ganga fyrir Etanoli (E85) en það er orkukgjafi sem er 85% Etanol og 15% bensín. Alls virðast hafa borist 14 umsagnir við frumvarpið en í nefndarálitinu sem nefndin skilar frá sér eftir að allar umsagnir eru komnar í hús er eingöngu tæpt á því efni sem Brimborg sendi inn þ.e. um Etanol orkugjafa og sama má segja um ræðu formanns nefndarinnar, Péturs H. Blöndal. Nokkrir nefndarmenn skrifuðu undir nefndarálitið með fyrirvara en ekki kemur fram hvað felst í fyrirvaranum. Brimborg gerir athugasemd við álitið þar sem fjallað er um Etanol orkugjafann því sá texti gengur ekki upp miðað við annað efni laganna en textinn hljómar svona:
"Við umfjöllun málsins kom til umræðu hvort ökutæki sem nýta etanól (E85) sem orkugjafa ættu einnig að falla undir frumvarpið og þá lækkun vörugjalds sem í því felst. Nefndin telur þetta þarfnast nánari skoðunar við enda samanstendur etanól-eldsneyti bæði af etanóli og bensíni."
Það sem gengur ekki upp í þessu er sú staðreynd að lögin taka á bílum sem eru svokallaðir tvíorkubílar þ.e. eðli málsins samkvæmt geta gengið fyrir tveimur orkugjöfum t.d. á metangasi/bensíni, rafmagni/bensíni, o.s.frv. Því er alveg eins hægt að aka þeim bílum eingöngu á bensíni ef menn vilja og á sama hátt er hægt að aka Etanol bílum á bensíni ef sá gállinn er á mönnum.
Þingmenn eru því hvattir til að breyta lögunum aftur og bæta Etanol bílum í lögin og hvetja þannig aðila til að hefja framleiðslu á þeim orkugjafa eða flytja hann inn og skapa þannig aðstæður til innflutnings á svona bílum. Það mun skapa fleiri valkosti á þessum markaði, auka samkeppni og draga úr mengun og brennslu á jarðeldsneyti og gæti jafnvel bætt hag bænda sem gætu hafið Etanol framleiðslu eins og segir á Wikipediu: "Current interest in ethanol lies in production derived from crops (bio-ethanol)"
Frumvarpið var samþykkt með 48 atkvæðum en 15 voru fjarstaddir. Umsögn Brimborgar í heild sinni kemur hér fyrir neðan.
Reykjavík, 28. nóvember 2006
AlþingiNefndasvið
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Efni: Umsögn um Þskj. 390 - 359 mál. Frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.
Berist til nefndasviðs:
Undirritaður Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri Brimborgar, fyrir hönd Brimborgar ehf., sendi hér með inn umsögn um þskj. 390 - 359 mál.
Undirritaður mælir með því að bifreiðar sem nýta etanol að verulegu leiti fái sambærilega lækkun gjalda og bifreiðar með metangasi eða rafmagni. Rökin eru þau að bifreiðar knúnar etanoli uppfylla markmið umræddrar greinar ofangreindra laga jafnvel, ef ekki betur, en þær eldsneytisgerðir sem nú þegar njóta lægri gjalda.
Mikil aukning hefur orðið á þessu ári í sölu og notkun bifreiða knúna þessu eldsneyti t.d. í Svíþjóð, Bandaríkjunum og Bretlandi. Ástæðan er sú að þetta eldsneyti er hægt að nota með tiltölulega litlum breytingum á vélum og uppfyllir því jafn vel, ef ekki betur, markmiðin í núverandi frumvarpi um að tvíorkubílar séu nauðsynlegt skref til að brúa bil þangað til dreifikerfi orkugjafa hefur verið aðlagað að nýjum orkugjöfum. Þess má geta að yfirvöld og sveitarfélög í Svíþjóð veita ýmsar ívilnanir fyrir þá sem aka um á bílum knúnum etanoli.
Etanolið gengur undir nafninu E85 vegna þess að 85% af eldsneytinu er etanol og 15% bensín og því er útblástur gróðurhúsalofttegunda hverfandi. Sala hefur nú þegar hafist í nokkrum löndum í Evrópu en Svíþjóð er langfremst á þessu sviði. Úrdráttur úr frétt þann 10. febrúar 2006 frá Ford Motor Company lýsir stöðunni nokkuð vel.
Ég birti textann á ensku og slóðina á alla fréttina hér fyrir neðan.
"Latest figures have revealed that more than 17,000 Ford Focus and Focus C-MAX Flexi-Fuel models have been sold in Sweden, which, in 2001, became the first European country to introduce FFVs (Flexi-Fuel vehicles).
This accounts for 80 per cent of all Focus sales in Sweden. And demonstrating a real shift in thinking, nearly 40 per cent of all Ford sales in Sweden now are FFVs.
Following this success in Sweden, Ford Focus Flexi-Fuel and Focus C-MAX Flexi-Fuel models are now on sale in Germany, the UK and the Netherlands. The Focus Flexi-Fuel is also available in Austria and Ireland, and ready to be sold in France. Other countries are expected to follow.
FFVs are part of Ford's broad portfolio of environmentally advanced vehicle technologies and its commitment to develop and offer them as an affordable alternative for our customers."
FFV=Flexi Fuel Vehicles
Ekki eru til staðar miklar tæknilegar hindranir við nýtingu þessa orkugjafa nema auðvitað framleiðslan á orkugjafanum sjálfum en lækkun gjalda á bílum af þessu tagi gæti gefið hugmyndum um framleiðslu á etanol hér á landi byr undir vængi.
Einnig er notkun bíla af þessu tagi í samræmi við rammasamning Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar og gæti stutt stefnu stjórnvalda í að auka hlut innlendra orkugjafa því líklegt verður að telja að hægt verði að framleiða etanol hér á landi.
Meðfylgjandi eru slóðir á vefsíður sem fjalla um bíla sem ganga fyrir etanoli.
Volvo car corporation um Volvo bíla knúnum vélum með etanoli:http://www.volvocars.com/corporation/environment/Alternativefuels/VolvoFlexiFuel.htm
Frétt frá Ford í Bretlandi um útblástur Ford bíla með vélum knúnum etanoli.
http://media.ford.com/article_display.cfm?article_id=23826
Frétt um þátttöku Ford í verkefnum í Evrópu varðandi Etanol.
http://media.ford.com/article_display.cfm?article_id=22619
Virðingarfyllst
Brimborg ehf.
Egill Jóhannsson, framkvæmdastjóri
Athugasemdir
Kæri Egill
Ég sé mig knúinn til að mótmæla þessu sem þú segir. Híbríð bílar hafa þann kost að þeir spara orku. Fjölbrennslubílar spara enga orku en búa til möguleikann á nýtingu annarra orkugkjafa. Það er gott og gilt svo framarlega sem þú getur sýnt fram á að elsneytið sé búið til á umhverfisvænan hátt. Mínar heimildir segja að eldsneytisframleiðsla hafi hingað til einungis stuðlað að eyðingu frumskóga og hækkun matvælaverðs þar sem ætar afurðir hafa verið nýttar til brennslu hjá ríkari þjóðum.
Lífrænt eldsneyti er ekki umhverfisvænt, illskárri kostur er að keyra bílaflotann áfram á bensíni og reisa eitt álver í viðbót. Það sparar orku og umhverfi.
Hér í Svíþjóð eru starfandi ægileg samtök sem nefnast "Miljöpartiet" sem tala um umhverfisvernd en vinna í raun gegn umhverfisvernd sökum vankunnáttu. Svíþjóð hefur dregist aftur úr öðrum Evrópuþjóðum í umhverfismálum á meðan þessi flokkur var í stjórn.
Ford kallinn verður að fjárfesta í híbríð tækni til að fá minn stuðning.
Kveðja
Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 11:34
Sæll Gaui og takk fyrir innleggið.
Ég er ósammála hvernig þú gefur í skyn að það sé grundvallarmunur á fjölbrennslubílum og hybrid bílum. Hybrid þýðir í raun bara að bíllinn getur notað tvo eða fleiri orkugjafa og væntanlega meinar þú það með orðinu fjölbrennslubíll. Þetta er því miklu frekar spurning um hvernskonar orkugjafar knýja hvern hybrid bíl fyrir sig.
Mín rök í því sem ég hef skrifað eru þau að ekki sé grundvallarmunur á bíl sem gengur á Etanoli/bensíni eða metangasi/bensíni eða rafmagni/bensíni. Allir nota þeir orku og alla er hægt að aka eingöngu um á bensíni ef sá gállinn er á mönnum. Orkan þarf alltaf að koma einhversstaðar frá og þannnig verður alltaf til mengun.
Það er því rétt hjá þér, en gildir reyndar um alla ofangreindar tegundir hybrid bíla, að þeir eru ekkert endilega umhverfisvænni en t.d. hreinir bensínbílar eða díselbílar heldur eru þeir ákveðinn kostur til að nýta aðrar tegundir orkugjafa og þannig er stuðlað að minni eftirspurn eftir jarðeldsneyti og grunnur lagður að nýtingu á framtíðarorkugjöfum. Þar liggur ávinningurinn. Því eiga Etanol bílar jafn mikið erindi og aðrir tvíorkubílar og eiga því jafnmikinn rétt á lækkun vörugjalda.
Í raun ef menn ætla virkilega að reikna út áhrif mismunandi orkugjafa á umhverfið þarf að skoða heildarmengunaráhrif af bílnum, þ.e. frá og með hönnun, framleiðslu, notkun og förgun. Í því samhengi hafa margir bent á að hybrid bílar sem ganga fyrir rafmagni og bensíni eins og t.d. Toyota Hybrid mengi í raun jafn mikið og hefðbundinn bensínbíll ef tekið er tillit til alls ferilsins og má þar nefna fjölda rafgeyma sem þarf bæði að framleiða og farga.
En á móti benda menn á að einhversstaðar þarf að byrja og hybrid bílar eru einhverskonar brú á milli núverandi bíla og væntanlegra lausna í framtíðinni. Þar kemur Etanol sterkt inn því hægt er að nota í meginatriðum sömu vélar og eru í framleiðslu núna (framleiðsla mengar líka og því kostur að geta notað núverandi framleiðslukerfi), núverandi dreifikerfi er hægt að nota (Etanol blandast bensíni) og engin mengun hlýst af förgun rafgeyma og enginn kostnaður við að skipta út rafgeymum Hybrid bíla í framtíðinni (ending sennilega um 5 ár að jafnaði, jafnvel hugsanlega minni hér á landi.)
Það vill nú svo til að "Ford kallinn" eins og þú orðar það, þ.e. Ford bílaframleiðandinn, hefur fjárfest gríðarlega í tækni sem byggir á næstu kynslóðum orkugjafa. Hybrid tækni er þar á meðal t.d. vetnistækni og Etanol tækni og er fyrirtækið í fremstu röð á þessu sviði. Því er ekkert því til fyrirstöðu fyrir þig að hefja stuðninginn við Ford strax.
Ford býður nú þegar á Bandaríkjamarkaði Ford Escape, Ford Fusion og sambærilega bíla af Mercury gerð með Hybrid tækni og einnig Etanol bíla en í dag keyra um 1,7 milljónir Ford bíla á Etanoli í USA. Ford er með nokkur vetnisverkefni í gangi í USA t.d. Ford Focus, Ford Econoline rútur og nýjast er Ford Explorer.
Einnig hafa þeir nýverið kynnt hugmyndabíl byggðan á nýja Ford Edge bílnum með næstu kynslóð af Hybrid tækni, svokallaðri plug-in hybrid tækni. Það sem Ford er að vinna að með þessum verkefnum er það að finna leið til að þróa vélar sem nýta núverandi framleiðslukerfi og núverandi dreifikerfi orkugjafa en geta samt gengið á næstu kynslóðum orkugjafa. Þetta er nauðsynlegt ef einhvert vit á að vera í þeim lausnum sem eiga að leysa mengunarvandamál nútímans.
Í þessu samhengi öllu er rétt að nefna að á sama tíma og þróun tvíorkubíla fer fram fer einnig fram stöðug þróun bensín og dísel véla. Gríðarlegar framfarir hafa orðið á báðum þessum sviðum og eyða bensínvélar í dag t.d. mun minna en þær gerðu fyrir aðeins 10 árum síðan. Það má nefnilega aldrei gleymast, og hefur komið fram hér að ofan, að mengun verður til vegna notkunar á orku. Því ætti í raun áherslan að vera á að spara orkuna. Eina leiðin sem virkilega virkar eru efnahagslegir hvatar og því ættu ríkistjórnir EKKI að hvetja menn til að framleiða ákveðnar gerðir véla eða selja ákveðnar gerðir véla. Áherslan ætti frekar að vera á því að minnka orkunotkun því um leið minnkar mengun. Besta leiðin til að minnka orkunotkun er að skattleggja eldsneytið og þannig myndast hvati bæði hjá bílnotandanum til spara eldsneyti og framleiðandanum að koma með sparneytnari lausnir óháð orkugjafa.
Ford og ég hef heyrt BMW vinna t.d. nú þegar að hönnun næstu kynslóða bensínvéla sem munu eyða margfalt minna en núverandi bensínvélar og um leið menga minna. Þær munu geta gengið á vetni líka. Svona lausnir spara gríðarlega mengun því ekki þarf að skipta út framleiðslukerfum og dreifikerfum á sama hátt og hef alveg nýjar leiðir eru farnar.
Egill Jóhannsson, 18.2.2007 kl. 13:46
Takk Egill
Þetta var ýtarlegt svar en við þurfum að sættast á orðanotkun.
Notum skammstöfunina HEV fyrir það sem ég kallaði híbríð bíl. Bensín og rafmótor í sama bílnum. Hann gengur fyrir orku sem verður að koma einhvers staðar frá en rafmótorinn getur breytt hreyfiorku í rafmagn fyrir utan það að brennslumótorinn gengur aldrei í tómagangi og alltaf á hámarks nýtni. Ef þú sýnir mér ethanól vél sem býr til brennivín þegar bremsað er, þá skal ég taka ofan fyrir herra og frú Ford.
HEV gengur fyrir orku sem verður að koma einhvers staðar frá en nýtir hana betur. Rafgeymar eru þungir og bölvað eitur en það eru allar líkur á því að blýi verði skipt út fyrir liþíum fyrr en síðar. Ég er á móti blýi en ég vil fá staðfestingu á að það sé verra en aukin eyðsla. Ef upplýsingarnar koma frá BNA þá verður höfundurinn að skýra hvers vegna BNA hefur ekki skrifað undir ROHS reglurnar sem banna eiturefni í raftækjum.
Vetnið vil ég helst ekki ræða um, það verður kannski nothæft í einhverjum sértilfellum í framtíðinni.
Ethanólið er áhugavert en þú verður að benda mér á hvar á að búa það til. Það er umhverfisvænna og arðvænlegra að nota íslensku raforkuna (alla raforku) í að búa til ál en vetni eða ethanól. Frumskógar Malasíu, Indónesíu, Borneó og Suður-Ameríku eiga frekar að vera frumskógar en að gefa íslenskum ökumönnum falska tilfinningu um að þeir séu umhverfisvænir. Mexíkanska kornið á frekar að seðja hungraða en að vera brennt á bílum. Það má hins vegar vel hugsa sér að nota gamalt brauð í sunnudagsrúntinn frekar en að henda því. Bentu á staðinn á jarðkúlunni þar sem má framleiða ethanólið og þá samþykki ég kannski og styð skattalækkun.
Ég verð að hryggja þig með því að Carnot lávarður fann lögmál á 19. öld sem segir til um hámarks nýtni brennsluvéla. Lögmálið lifir þótt Carnot sé dauður og maður nær ekki mikið meiri nýtni með brunavél en dísel vélar gera í dag. Vandamálið skilst mér með dísel vélarnar er það að olíuhreinsunarstöðvarnar gætu ekki framleitt nógu mikið ef fólk skipti yfir. Ég veit ekki betur en að bílar eyði meiru í dag en í olíkreppunni sökum krafna fólks um öryggi. Þar er ekki við bílaframleiðendur að sakast heldur samfélagsnorm.
Varðandi aukinn skatt á eldsneyti þá erum við hjartanlega sammála. Ef þú nærð að minnka fasta kostnaðinn við bílaeign og færa hann yfir á keyrsluna þá færðu stóran plús í kladdann.
Það komu tveir stúdentar í heimsókn hingað á Chalmers (Gautaborg) um daginn frá Volvo til að kanna notkun á kísil karbíði fyrir rafeindatæknina í HEV bílum. Toyota mætir hins vegar með framúrskarandi niðurstöður á þessu sviði á ráðstefnur þannig að ég held að veðji frekar á þá.
Sumsé. Ef þú sýnir mér fram á að ethanól bíllinn sé ekki stórhættulegur frumskógunum, þá mun ég ekki mótmæla skattalækkunum honum til handa. Enn betra væri eins og þú segir að skattleggja eldsneytið, þá mætti kannski líka skattleggja orkuna sem fór í að búa bílinn til.
Kveðja
Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 15:33
Ég spyr bara, hvaðan á allt etanólið að koma í tanka landsmanna? Síðan segirðu
Etanolið gengur undir nafninu E85 vegna þess að 85% af eldsneytinu er etanol og 15% bensín og því er útblástur gróðurhúsalofttegunda hverfandi.
Ég myndi passa mig á orðanotkuninni hér, því að það er svipaður útblástur koldíoxíðs hjá þeim bifreiðum sem keyra á E85 blöndunni en nettó útblásturinn er minni vegna þess að etanólið var búið til úr koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Ég veit að þetta er smámunasemi af minni hálfu en rétt skal vera rétt ;)
Fræðingur, 19.2.2007 kl. 03:36
Sæll Fræðingur
Þú spyrð hvaðan á Etanolið að koma? Ég svara því í færslunni upphaflegu. Þetta er í raun en sígilda spurning um eggið og hænuna. Hvort kemur á undan bílar sem ganga fyrir etanoli eða etanolið sem fer á bílana. Mín tillaga gengur einfaldlega út á það að skilgreina þessa gerð bíla í sama flokk og aðra tvíorkubíla og skapa þannig markað fyrir þá sem hugsanlega vilja framleiða etanol.
Og það er einmitt nettó útblásturinn sem skiptir máli.
Egill Jóhannsson, 19.2.2007 kl. 08:58
Sæll Gaui
Þú segir að liþíum rafgeymar séu að koma en því miður hefur þróun rafgeyma verið mun hægari en menn reiknuðu með. Þú mannst eflaust eftir því að fyrir 30 árum var mjög mikil umræða um að rafmagnsbílar væru að koma. Þeir eru ekki enn komnir.
Rafgeymar eru líka þungir aukin þyngd bíla eykur eyðslu.
Varðandi að búa til etanol þá skil ég nú ekki alveg tenginguna hjá þér við regnskógana. Svíar aka núna um á tugum þúsunda etanol bíla og tugþúsundir seljast þar á hverju ári. Samt eru þeir ekki með neina regnskóga. Sam á við í Bandaríkjunum en Ford er með um 1,7 milljónir etanol bíla á götunum þar og GM annað eins og jafnvel fleiri framleiðendur. Ég veit ekki til þess að neinir regnskógar séu þar heldur. Allt etanol er framleitt í þessum báðum löndum og bændur t.d. í Bandaríkjunum eru margir að færa sig á þetta svið vegna aukinnar eftirspurnar.
það er rangt að vélar eyði meiru núna en í olíukreppunni. Ég hef verið í bilabransanum ansi lengi og bílar eru mun sparneytnari í dag en fyrir 30 árum. Þrátt fyrir aukinn öryggisbúnað og þar af leiðandi aukna þyngd.
Það væri gaman að sjá þessar tölur sem þú nefnir með Toyota því þeir standa ekki framar á þessu sviði en Ford. En spurning hvaða tölur þú ert að tala um? T.d. samanburður á HEV (Hybrid rafmagn(bensín) en þar eru Ford og Toyota mjög sambærilegir enda báðir að nota svipaða tækni.
Egill Jóhannsson, 19.2.2007 kl. 09:08
Takk aftur
Ég skal finna til tölur en hvað heitir þessi samkeppnishæfi Ford HEV?
Annars mæli ég með eftirfarandi lestri
"Sweden imports the majority of its bioethanol from Brazil." Nú máttu skýra út fyrir mér hvernig þetta tengist ekki regnskógum :)
http://www.publications.parliament.uk/pa/ld200506/ldselect/ldeucom/267/26708.htm
Ég get svarað þessu með olíukreppuna og rafgeyma síðar en nú verð ég að fara að lesa mig til.
Kveðja
Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 10:15
Sæll Gaui
Eins og ég hef áður nefnt í minni upphaflegu bloggfærslu þá er Ford með nokkra HEV bíla (Hybrid Electric Vehicle).
Ford Escape hybrid og Mercury Mariner hybrid (sportjeppar)
Ford Fusion hybrid og Mercury Milan hybrid (Fólksbílar í milliflokki)
Þessir bílar byggja í grunninn á sömu/svipaðri tækni og Toyota Prius og þessar bílar eru samþykktir af Bandaríkjastjórn til að fá skattaívilnanir til handa hybrid bílum.
Varðandi innflutning á etanol þá er ég sammála ef það kemur niður á regnskógum en það er auðvitað ekkert víst að þetta sé framleitt á kostnað regnskóga eða annarra skóga. En eins og ég hef sagt áður þá er að aukast ræktun t.d. í USA til að mæta aukinni eftirspurn.
Í þessu samhengi held ég að rétt sé að færa umræðuna upp á annað stig varðandi koltvísýringinn. Það er staðreynd að koltvísýringur er alltaf til staðar. Gróður bindur koltvísýring sem þegar er til staðar á jörðinni. Jarðolía var einu sinni gróður fyrir milljónum ára og þegar henni er brennt þá losnar aftur um koltvísýringinn sem áður hafði bundist. Þetta er því alltaf bara spurning í hvaða ástandi koltvísýringur er á hverjum tíma.
Þegar land byggðist hér á landi segja Íslendingasögurnar að landið hafi verið skógi vaxið milli fjalls og fjöru. í þessum skógi var væntanlega bundið fullt af koltvísýring. Þegar landnemarnir, víkingarnir brenndu skóginn til að hita upp torfkofana þá losuðu þeir koltvísýring út í andrúmslofið. Það þurfti enga bíla til.
Því segi ég að etanol geti verið góður kostur að því gefnu að það sé framleitt úr jurtum sem plantað er sérstaklega til þeirra framleiðslu. Þá taka þær í sig koltvísýringin sem aftur losnar við framleiðslu á etanoli. Nettó yrðu það lítil áhrif hvað koltvísýring varðar en þetta minnkar okkar þörf fyrir notkun á jarðolíu sem orkugjafa og minnkar þannig óbeint losunina.
Egill Jóhannsson, 19.2.2007 kl. 13:10
Sæll aftur
Þetta hefur verið áhugavert og ég virði það að þú ert málefnalegur.
Það er gott að þú samþykkir að frumskógana megi ekki skerða. Því miður hef ég sannanir fyrir því að það er gert í miklum mæli.
Ég vil færa umræðuna frá þessu koltvíoxíðsstagli, flestar lausnirnar eru því miður eins og að lækna krabbamein með skammbyssu. Ástand þess gróðurs (lífríkis) sem bindur koltvíoxíðið má ekki gleymast.
Eftirfarandi síða er áróður gegn vetnisvæðingu en væri samt mun betri kandidat fyrir íslensku bókmenntaverðlaunin í fræðibókmenntum en... :)
http://www.oilcrash.com/articles/h_scam.htm
Olían er afrakstur af milljón ára sólarljósi. Byrjaðu núna að búa til olíu og 30 þúsundasti afkomandi þinn mun njóta hennar.
Varðandi bensíneyðslu þá er eftirfarandi síða áhugaverð.
http://www.nhtsa.gov/cars/rules/CAFE/CAFEData.htm
Bandarískir bílar eyða minna og léttast (eru að ná hinum) en evrópskir og japanskir eyða aðeins meiru en hafa þyngst umtalsvert. Ef evróasískir bílar væru jafn þungir og þeir voru 1983 en með nútíma vélar þá færum við langt með að standa við Kyoto bókunina án þess að skerða frumskógana. Þarna er við almenning að sakast sem kaupir stærri og fleiri bíla en heimtar lausnir af stjórnmálamönnum.
Varðandi Ford HEV líst mér nú ekki á útkomuna. Samkvæmt eftirfarandi síðu eyðir Ford Escape 7,8-8.4 lítrum á hundraðið svipað og Volvo Dúett 1957 (skv. Wikipedia og gamalli auglýsingu).
Toyota Prius eyðir 4,7 lítrum á hundraðið, svipað og Suzuki Alto 1981 (bíllinn sem mamma átti).
http://www.usatoday.com/money/autos/reviews/healey/2004-05-13-escape-main_x.htm
Varðandi Toyota og kísil karbíð þá bendi ég á frétt frá BBC
http://news.bbc.co.uk/1/hi/sci/tech/3598836.stm
Þetta efni mun gera HEV öruggari, ódýrari og skilvirkari.
Varðandi rafhlöður þá er það rétt hjá þér að þær hafa látið á sér standa. Liþíum hefur fimmfalt meiri orkuþéttleika miðað við þyngd og rúmmál en blý en krefst flókins rafeindabúnaðar sem er að verða fullreyndur. Það eru á markaðnum reiðhjól sem ganga á liþíum rafhlöðu og ég held að hjólið sem er til sölu í Erninum sé slíkrar gerðar. (Hvenær ætluðu menn annars að vera búnir að finna lyf við kvefi? :)
Nú held ég að ég fari að snúa mér frá skriftum, takk fyrir spjallið.
Kveðja
Gaui
Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 19.2.2007 kl. 20:16
Sæll og takk sömuleiðis fyrir áhugaverða umræðu.
Eitt að lokum. Það er ekki allskostar rétt hjá þér að bera saman Toyota Prius og Ford Escape hybrid. Ástæðan er sú að Ford Escape er 4x4 jeppi en Prius fólksbíll framdrifinn í milliflokki. Jeppi mun ávallt eyða meiru en fólksbíll.
Því væri réttara að bera Toyota Prius hybrid bílinn við Ford Fusion hybrid bílinn sem ég nefndi líka sem kost frá Ford þó hann sé jafnvel heldur stærri en Priusinn.
En annars, takk aftur fyrir umræðuna.
Egill Jóhannsson, 19.2.2007 kl. 21:18
Nú er nóg komið af þessu röfli.
1. Það er mjög hæpið ef ekki rangt að CO2 valdi hlýnun
adrúmsloftsins. Hvaða áhrif hafa 3-4 tíuþúsundustu
hlutar af CO2 í loftiu á endurgeislun innrauðra geisla.
Eitt myndarlegt eldgos veldur útblæstri á CO2 sem
svarar til 3-200 ára framleiðslu af mannavöldum,
Gróðurhúsaáhrifin hefur aldrei verið hægt að sanna,
þau eru byggð á vægast sagt hæpnum tölvulíkönum
sem ekki taka tillit til efna og eðlisfræðilegrar hegðunar
á CO2. Þessi heimsendaspá er eins og aðrar sem komið
hafa fram. Ísöld fyri 30 árum síðan, Súrtregn sem reydist
röng stefna í skógrækt og Ozon gatið sem hvarf þegar
bent var á þá staðreynd að ozon myndast með tilstilli
útfjólublára geisla sólar. Allar hafa þær snúist um
fjárveitingar og ítök.
2. Að spara orku þ.e. að aka farartæki frá A til B á færri hita-
einigum (hér er átt við af vissri þyngd og mótstöðu) er ekki
hægt. Það sem mundi ?spara? orku er að fynna leiðir til að
nýta eldsneytið betur en nú. Þar af leiðandi eru tvínbílar þ.e.
(raf/olía) bókhaldsbrella, Því sú orka í formi rafmagns sem fæst
við bremsun ertu þegar búinn að nota við hröðun bílsin í
í þá hreyfiorku sem verið er að bremsa, með því að brenna
eldsneyti. Tvín farartæki eru ekki nein nýjung, þau eru í það
minsta 100 ára gömul í járnbrautartækninni,
3. Það er nauðsinlegt að fá samkeppni (leiðilegt tískuorð) í brennslu
efnis notkunina til að fría jarðolíu vinnsluna frá pólitískum
áhrifum og það verður skortur á olíu innan tíðar vegna notkunar í
efnaiðnaði, aðallega plastefnaiðnaði. Því jarðolia er handhægasta
og þar með ódýrasta uppspretta kolvetna.
4. Etanol, BioEtanol og Etylalkóhól er eitt og sama efnið, á íslenzku
vínandi, og enn þann dag í dag er eina raunhæfa vinnslu aðferðin
gerjun á plöntu kolvetnum og eiming á gambranum.
Og hafið þið sem mest hræðist hlýnun jarðar gert ykkur grein fyrir
því magni af CO2 sem myndast við gerjunina.
Vetni er besti kosturinn ef hægt er að hemja það.Þar sem sveðjan
stendur í kúnni, er geymsla vetnis í einhverjum mæli, menn telja að
það séu 15-20 ár þangað til, ef það þá tekst. Það er ekki vit í að hafa
Kólubíu ferjur siglandi um höf jarðar eða akandi á götum borga.
5. Hvað varðar mengun er CO2 haft fyrir rangri sök og þegar sjónvarp
sýnir mengun í stórborgum er það sem sést 99,9% svifmengun (svifrik)
og NO2, CO2 er ósýnilegt. Svifrikið er sú mengun af umferð sem þarf
að varast, kemur frá útblæstri (sót) og frá vegum. Hvoru tveggja er hægt
koma í veg fyrir að mestu með því að hafa farartækin í fullkomnu ástandi
og hætta að aka um á fræsurum og við það minnkar CO (kolmonoxyd)
í útblæstri, sem er eitur. Snefil efni í eldsneyti eru líka skaðvaldar en þau
hafa minnkað síðari ár og sum horfið alveg, svo sem blýsambönd.
6. Hvað varðar hlýnun jarðar hafa skifst á hlýindaskeið og kuldaskeið í
milljónir ára, þar ræður mestu virkni sóla og aðstæður í geimnum sem
sólkerfi okkar ferðast um.
Fyrst var jörðin flöt síða sönnuðu (það er ritað í gömlum íslensum hand-
ritum) norrænir menn að hún var hnöttur með því að gera sér grein fyrit,
hvers vegna fjallatoppar sjást fyrst þegar silgt er að landi. Síðan fullyrtu
klerkar að Guð hefði skapað sólina til að snúast um jörðina. Þeir hótuðu
Galilei öllu illu ef hann neitaði ekki að jörðin snerist um sólu, en hvað
tautaði hann ekki þegar hann gekk af þeira fundi " Hún snýst nú samt".
Nú eru það Náttúrusinnar sem ganga berserksgang og fullyrða að menn-
ingin sé að ganga frá nátturinni dauðri, það er hægt að ýmynda sér hvers-
konar völd þeir mundu fá ef kæmust til valda og réðu hugsun og gerðum
manna.
Það sem er nauðsynlegt er að koma allri pólitík, nátúruverndar ofsatrú
og verslunarfíkn út úr þessari umræðu.
Leifur Þorsteinsson, 21.2.2007 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.